Í landinu er stjórnarkreppa. Við blasa erfiðleikar sem jaðra við þjóðargjaldþrot. Afleiðingarnar verða hrikalegar!. Mörgu er um að kenna: Óheftri og skefjalausri markaðshyggju; gripdeildum fjármálamanna, siðlausri og óábyrgri stjórnarstefnu undangengin 18 ár undir leiðsögn Sjálfstæðisflokks í samstarfi við Alþýðuflokk, Framsóknarflokk og Samfylkingu.
Björgvin G. Sigurðsson - nú fyrrverandi viðskiptaráðherra - gaf skýr og jákvæð skilaboð á fréttamannafundi í morgun. Hann sagði af sér embætti og viðurkenndi að hann bæri að hluta til ábyrgð á því hvernig komið væri.
Frábært var að verða vitni að því þegar friðsamir mótmælendur gengu fram fyrir skjöldu í bókstaflegri merkingu eftir að fjöldi lögreglumanna hafði verið slasaður með steinkasti.